Frönsk kjötsúpa

Matreiðsla var eitt af mínum uppáhalds fögum sem ég tók í skólanum. Þó svo að kennarinn hafi um aldur og ævi fælt mig frá því að nota matarlím, þá eru nokkrar uppskriftir sem hafa fylgt mér öll þessi ár. Fyrir ekki svo alls fyrir löngu var ég að fletta í gegnum þessar ágætu uppskriftir (og upplifa nostalgíukastið) þá rakst ég á uppskrift að franskri kjötsúpu. Venjulega er ég ekki hrifin af gúllasi og finnst það verða of þurrt, en þessi súpa sat í mér öll þessi ár, því mér fannst hún dásamleg. Ekki skemmdi það að það er rauðvín í uppskriftinni og þótti okkur það einstaklega spennandi í grunnskólanum.

Í gærkvöldi fengum við óvænta matargesti, tvo kollega mína úr vinnunni, einn Dana og Kanadabúa. Þegar þau eru hér á landi búa þau á hótelum eða leiguherbergjum, en lifa næstum á veitingastöðum, þótti þeim því einstaklega skemmtileg tilbreyting að fá heimalagað mat.

Auðvitað klikkaði ég á að taka mynd af súpunni, en hver veit nema ég skelli henni inn næst þegar ég laga hana.

Frönsk kjötsúpa

Fyrir fjóra
Undirbúningur 20 mín
Suðutími 70 mín.

 • 400 g nautakjöt, í bitum
 • 2 msk matarolía
 • 1 laukur
 • 1 búnt steinselja
 • 2 msk tómatmauk
 • 1 tsk timjan
 • salt og svartur pipar
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 dl rauðvín
 • 8 dl kjötsoð (vatn og 2 teningar)
 • 2 gulrætur
 • 4 meðalstórar kartöflur
 • 1 blaðlaukur
 • 100 g sveppir
 • 3 sneiðar beikon
 • 2 hvítlauksrif

Aðferð:
1. Brúnið kjötið í olíunni í potti.

2. Saxið laukinn og steinseljuna með stilkunum. Bætið út í pottinn lauki, steinselju (geymið smávegis til þess að skreyta með), tómatmauki, timiani, salti, pipar, lárviðarlaufi, rauðvíni og kjötsoði og látið sjóða við vægan hita í 50 mín.

3. Flysjið kartöflurnar og skerið þær og gulræturnar í bita. Setjið gulrætur og kartöflur út í súpuna og látið sjóða í 15 mínútur.

4. Sneiðið blalauk og sveppi og léttsteikið ásamt beikoni. Setjið út í súpuna ásamt pressuðum hvítlauknum. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Kryddið ef með þarf.

5. Stráið afganginum af steinseljunni yfir súpuna rétt áður en hún er borin fram.

Ég bauð upp á smábrauð og auðvitað rauvín með þessum rétti og var þetta alveg nóg fyrir fjóra, og var meira að segja smá afgangur. Þetta sló svo vel í gegn að bæði báðu þau um uppskriftirnar að veislu lokinni.

Bon appetit

Þessi uppskrift er mjög sennilega úr einni Hagkaups uppskriftabókinni.

Sítrónukaka sem færir birtu í lífið

Ég hef endalaust gaman af að skoða uppskriftir á netinu og á ég orðið veglegt safn vistað inni á tölvunni minni. Því miður þá hef ég ekki náð að prófa þær allar, en þegar andinn kemur yfir mig hef ég gaman af að renna yfir safnið og sjá hvað tíminn+hráefnið sem til er leyfir mér að gera.

Um daginn datt ég niður á dásamlega uppskrift að sítrónuköku. Hún er sögð vera frá Starbucks, en ég veit ekki hvort þeir hafi gefið upp leyniuppskrift sína, en aldeilis góð er hún. Mér datt aldrei í hug að sítróna og kaka færu svona vel saman, en hún er svo björt og falleg og bragðið svo frísklegt að hún er fullkomin í dimma vetrarmánuði til þess að birta þá upp og stytta biðina í sumarið.

Sítrónukakan er fullkomin til þess að mæta með í vinnuna og þar sem ég og betri helmingurinn vinnum á sitthvorum staðnum, þá geri ég alltaf tvöfalda uppskrift. Við skulum orða það sem svo að í bæði skiptin sem við höfum mætt með kökuna, þá hafa vinnufélagarnir verið glaðari en áður.

Sítrónukaka
Mynd frá Kristrúnu Eyjólfsdóttur

Uppskriftin er svo hljóðandi:

Einföld uppskrift
 • 1,5 bolli hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur (ég minnka sykurmagnið alltaf smá)
 • 2 msk mjúkt smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk sítrónudropar
 • 1/3 bolli sítrónusafi úr ferskum sítrónum (ca. 1 sítróna)
 • 1/2 bolli bragðdauf olía
 • Börkur af einni sítrónu

Glassúr:

 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk nýmjólk
 • 1/2 tsk sítrónusafi

Þá er komið að því að gera kökuna!
Byrjaðu á því að hita ofninn í 175°C og smyrja kökuformið mjög vel.

Raspaðu börkinn af einni sítrónu og kreistu svo safann úr sítrónunni.
Blandaðu saman hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál.
Í aðra skál, hrærðu saman egg, sykur, smjör, vanilludropa, sítrónudropa og sítrónusafa þar til það hefur blandast vel saman. Gott að nota þeytarann á lágum hraða (passaðu að það sullist ekki allt úr skálinni).
Hrærðu nú blautefnunum saman við þurrefnin þar til deigið er mjúkt og gott.
Helltu nú olíunni og sítrónuberkinum saman við og blandaðu vel saman.

Helltu deiginu í smurt formið og bakaðu í miðjum ofni í ca. 45 mínútur.
Mundu að ofnar eru mismunandi og því getur tíminn verið breytilegur. Gott er að miða við það þegar kakan fer að slíta sig frá köntunum, eða gamla góða aðferðin að stinga prjóni í hana og fá hann hreinan.

Glassúrið getur ekki verið einfaldara, helltu hráefnunum saman í skál og hrærðu saman. Helltu því svo yfir kökuna, en gættu þess að gera það ekki fyrr en hún er orðin köld, svo það bráðni ekki inn í hana.

Í upprunalegu uppskriftinni voru sítrónudropar í kreminu, en mér þótti það verða of beiskt og með svipuðu magni af sítrónusafa (þessum í gulu brúsunum til dæmis) þá fær hún mun léttara og ferskara yfirbragð en annars.

Njóttu vel, hvort sem það er sumar eða vetur.

Þessi uppskrift er fengin af einhverju kökublogginu sem er í gangi, en ég man ekki hvaðan. Það var ekki ætlunin að stela neinu, þessi uppskrift er dásemd, svo takk fyrir mig.